Letrið okkar heitir LV Sans og er sérgert fyrir uppfærða ásýnd. Letrið hannar Gabríel Markan, í samstarfi við Kolofon hönnunarstofu.
Við leggjum áherslu á að notast við íslenska hönnun og framleiðslu þar sem það er mögulegt. Því er það mikil ánægja að vera eitt af fyrstu fyrirtækjum á Íslandi til að leggja í slíka vinnu. Sérgert letur skilar líka sérkennum, sem eru mikilvægur þáttur í allri ásýndarvinnu.
LightLight Oblique100
RegularRegular Oblique300
SemiboldSemibold Oblique600
BoldBold Oblique800
Innblástur og einkenni letursins
Allt sem við vinnum að hjá Landsvirkjun byggir á mikilli nákvæmni og fagmennsku. Letur fyrirtækisins þarf að endurspegla gildin sem við störfum eftir. Hönnunin byggir á leik milli organískra forma og þeirra formföstu og leitinni að jafnvægi þeirra á milli.
LV Sans er teiknað með það í huga að vera læsilegt, rökrétt og halda uppi einkennum okkar í allri notkun. Með sérteikningu leturs var lagt í fínvinnu á þeim hliðum letursins sem nýtast okkur best. Þessi smáatriði er að finna í ýmsum stökum stöfum og samsetningum. Eitt dæmi um þetta er bókstafurinn W, sem er sérstaklega áberandi hjá okkur í samanburði við aðra sem vinna með íslenskt mál.
Auk þess varð letrið að hafa nægilega mikið skap til að vera sýnilegt og þekkjanlegt í öllum útgáfum, allt frá stærstu fyrirsögnum niður í fíngerðustu eftirmála.
Það eru 32 bókstafir í íslenska stafrófinu, að meðtöldum broddstöfum. Það dugar þó skammt í smíði á letri sem á að uppfylla þær kröfur sem við setjum okkur. LV Sans inniheldur 525 tákn í hverri þykkt og útgáfu, og inniheldur auka letursett eins og old style tölustafi, small caps og fleira.