Merki 

Merkið okkar á sér rúmlega fimm áratuga langa sögu og er án efa eitt af þekktari vörumerkjum landsins. Höfundur þess er Ágústa P. Snæland, einn af frumkvöðlum grafískrar hönnunar á Íslandi. Ný útgáfa merkisins hefur verið löguð að þörfum nútíma miðlunar og um leið fært aftur nær upprunalegum hugmyndum höfundarins.

Form merkisins, tvö L, mynda samtal náttúrunnar (liturinn vatn) og mannvirkjanna (liturinn steinsteypa) og á milli þeirra rennur aflið sem myndast úr þessu samtali. Sterk form merkisins, ásamt nýju og skýru letri, mynda tímalaust merki sem sómir sér vel á öllum miðlum.

Litur

Uppfærða útgáfu merkisins má sækja hér á síðunni, en hafa skal til hliðsjónar notkunarreglur þess, hvar og hvenær sem það er notað. Verndarsvæði þess skal vera virt, sem og reglur um útgáfur lita.

Þróun frá 1967

Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí 1965 og ári seinna var sett af stað hugmyndasamkeppni um merki fyrir fyrirtækið. Í auglýsingu þann 11. ágúst 1966 segir meðal annars;

„Ætlunin er að nota megi merkið í ýmsum stærðum, sem bréfhaus, skilti o.s.frv. […] Uppdrætti skal gera á hvítan pappír, arkarstærð 420–594 mm (A2), og skal ekki vefja þá saman. Suttorð lýsing, er geri grein fyrir hugmyndinni, skal fylgja uppdrætti.“

Þann 9. nóvember 1966 var síðan ákveðið á fundi dómnefndar í hugmyndasamkeppni um merki fyrir Landsvirkjun að veita fyrstu verðlaun úrlausn merkt „Aqua“. Höfundur merkisins reyndist vera frú Ágústa P. Snæland og hlaut hún fyrstu verðlaun, að upphæð kr. 15.000,—.

Eftir nokkra vinnu við fínstillingar var nýtt merki Landsvirkjunar kynnt opinberlega og tekið í notkun 1967.

Síðustu fimm áratugi hefur merkið tekið smávægilegum breytingum, þó aðallega varðandi leturmeðhöndlun í heiti fyrirtækisins. Líklegt er að hver breyting hafi verið ákveðin í ljósi tækniþróunar og möguleika í framsetningu á grafísku efni hvers tíma.

Merkið hélst mikið til óbreytt fram til ársins 1997, um það leyti sem tölvunotkun varð almenn í vinnslu á framsetningu efnis. Þá hefur þótt eðlilegt að endurteikna merkið, með nýju leturvali sem endurspeglar tísku þess tíma. Sama útgáfa fékk afmælisuppfærslu í tilefni 40 ára hátíðarhalda og hélst sú útgáfa óvart í notkun næstu fimm ár.

Með uppfærslunni sem var gerð 2011 var í raun eina afgerandi breyting á merkinu sjálfu gerð, þegar formin tvö voru opnuð og „fossinn“ látinn myndast á milli. Þessi breyting jók notkunarmöguleika á merkinu í einlit til muna.

1967

1991 – 1996

1997 – 2005

2005 – 2010

2011

2020

Með núverandi uppfærslu á merkinu má segja að við færumst aftur nær upprunalegum hugmyndum Ágústu. Það gerum við með því að færa leturvalið aftur í húmaníska steinskrift (sans-serif) og með því að víxla litunum í merkinu til baka, þannig að dekkri liturinn er hafður í fremra forminu.

Merkið hefur einnig verið endurteiknað til að samstilla hlutföll þvert í gegnum alla hluti þess.

Útgáfur af merki

Í uppfærðum reglum er nú í boði að nota tvær grunnútgáfur af merkinu, með og án leturs. Ef merkið er notað af þriðja aðila er ekki heimilt að nota merkið án leturs og telst því merkið með letri aðalútgáfa þess.

Merkið er tvílitt, þar sem vinstri hluti þess er í sama lit og letrið (vatn eða hvítt, eftir bakgrunni) á meðan hægrihluti þess er ávallt í litnum steinsteypu.

Merkið má nota í einlit.

Merkið er gefið út í öllum helstu útgáfum fyrir skjá- og prentmiðla. Fyrir skjámiðla er merkið í RGB litum, fáanlegt bæði sem .png og .svg skrár. Fyrir prentmiðla er merkið ávallt í .pdf útgáfu, annarsvegar sem CMYK og hinsvegar Pantone útgáfu.

Sækja merkjapakka

Vörumerkjagátt landsvirkjunar

Merki, myndmerki og fleira til

Með því að tengjast vörumerkjagátt Landsvirkjunar, færð þú aðgang að safni efnis og einingum sem má nota til að byggja upp ásýnd fyrirtækisins.